Bílagjöf frá Heklu
Föstudaginn
15. desember afhenti bílaumboðið Hekla Borgarholtsskóla bíl að gjöf. Bíllinn er af gerðinni Audi TT og verður hann notaður við kennslu á bíltæknibrautum skólans.
Friðbert Friðbertsson, forstjóri Heklu, afhenti Ársæli Guðmundssyni skólameistara lykilinn að bílnum en hann afhenti lykilinn svo áfram til Marínar Bjarkar Jónasdóttur sviðsstjóra. Hún og Guðrún Svava Gómez nemandi í bifvélavirkjun tóku svo utan af gjöfinni með dyggri aðstoð nærstaddra.
Eftir að búið var að taka utan af gjöfinni var
slegið upp hamborgaraveislu til að fagna henni.
Mikið hefur verið rætt um samþættingu náms og atvinnulífs að undanförnu og má líta á gjöfina sem skref í áttina að aukinni samvinnu skólans og þeirra fyrirtækja sem starfandi eru í bílgreininni. Þess má geta að fyrr í vetur efndi Borgarholtsskóli til sameiginlegs fundar með fyrirtækjum og öðrum hagsmunaaðilum í bíliðngreinum með það að markmiði að leggja á ráðin um framtíðar skipan náms í greinunum.