Bergrún Ósk íþróttakona ársins

14/12/2018

  • Bergrún Ósk ásamt öðrum verðlaunahöfum.

Fimmtudaginn 13. desember tilkynnti Íþróttasamband fatlaðra um kjör íþróttafólks ársins. Bergrún Ósk Aðalsteinsdóttir frjálsíþróttakona og nemandi í Borgarholtsskóla var kosin íþróttakona ársins.

Bergrún Ósk er 18 ára gömul og æfir frjálsar íþróttir hjá ÍR. Bergrún keppir í flokki F/T 37.

Frá Íþróttasambandinu: "Frjálsíþróttakonan Bergrún Ósk Aðalsteinsdóttir er íþróttakona ársins 2018. Bergrún sprakk út á Evrópumeistaramótinu í Berlín síðastliðið sumar þar sem hún vann til þrennra verðlauna. Brons í 100 og 200 metra hlaupi og silfur í langstökki.
Með útnefningunni er Bergrún önnur frjálsíþróttakona sögunnar sem verður íþróttakona ársins en fyrst varð Matthildur Ylfa Þorsteinsdóttir nafnbótarinnar aðnjótandi árið 2012 en hún keppti einmitt í sama flokki og Bergrún.
Þetta er í fyrsta sinn sem Bergrún verður Íþróttakona ársins en hún hefur tekið stórstigum framförum síðustu ár. Bergrún vann alls til átta verðlauna á erlendum mótum þetta árið og setti sex Íslandsmet, fjögur utanhúss og tvö innanhúss.
Þjálfarar Bergrúnar frá upphafi í frjálsum eru Óskar Hlynsson og Brynjar Gunnarsson sem er núverandi þjálfari Bergrúnar."

Bergrúnu Ósk er óskað hjartanlega til hamingju með þennan titil.

Meðfylgjandi mynd er fengin af vef Íþróttasambands fatlaðra .


Hefur þú ábendingu um frétt?

Sendu okkur jákvæðar og skemmtilegar fréttir.

Lesa meira