Arnar Huginn hlaut styrk
Tuttugu og átta nemendur úr sextán framhaldsskólum víðs vegar af landinu, hlutu verðlaun úr Afreks- og hvatningarsjóði stúdenta Háskóla Íslands í ár. Styrkjum var úthlutað úr sjóðnum í tíunda sinn við hátíðlega athöfn á Háskólatorgi. Styrkþegarnir eiga það sameiginlegt að hafa náð framúrskarandi árangri í námi til stúdentsprófs og munu hefja grunnnám við Háskóla Íslands í haust.
Einn af styrkhöfunum 2017 er Arnar Huginn Ingason sem varð dúx Borgarholtsskóla vorið 2017. Arnar stundaði nám á bóknámsbraut viðskipta- og hagfræðibrautar ásamt því að vera á afreksíþróttasviði.
Við brautskráningu í vor hlaut Arnar fjölmargar viðurkenningar. Arnar hefur mikinn áhuga á íþróttum og æfir handknattleik með Víkingi og hyggur á nám í íþrótta- og heilsufræði.
Borgarholtsskóli óskar Arnari til hamingju með viðurkenninguna sem dugnaði hans er sýnd.