Annarlok hjá leiklist
Mikið hefur verið um að vera á leiklistarkjörsviði skólans nú í annarlok þar sem nemendur hafa verið að skila inn lokaverkefnum og haldið ýmisskonar sýningar.
Nemendur á öllum stigum náms hittust á sameiginlegum leiklistarmorgni á dögunum. Hver árgangur sýndi frá því sem fengist hafði verið við á önninni sem er að líða en verkefnin voru margvísleg. Þar má nefna spuna- og sirkusæfingar, söngur, skapandi skrif, leikin atriði og leiklestrar.
Nemendur hafa svo séð fjórar leiksýningar í Þjóðleikhúsinu á önninni en í tengslum við þær ferðir vinna nemendur verkefni.
Í síðustu viku voru skil hjá öllum hópum. Skilin felast meðal annars í framkomu á tónleikum, í leikþáttum, sýningum á vídeóverkum og frjálsu framlagi nemenda svo eitthvað sé nefnt. Aðstandendum nemenda hefur verið boðið að koma og fylgjast með eftir því sem fjöldatakmarkanir hafa leyft.
VEL3A05 er verkstæðisáfangi á leiklistarkjörsviði á þriðja ári. Hluti af lokaverkefni nemenda í áfanganum er að undirbúa sig eins og verið sé að fara í inntökupróf hjá LHÍ. Einn af nemendunum, Anna Marín Bentsdóttir bakaði glæsilega köku þar sem hún blandaði saman ástríðu sinni fyrir kökugerð og eigin pælingum um þróun sína sem nemanda á leiklistarkjörsviði og útkoman var hreint frábær.