Alþjóðleg þýskupróf – prófskírteini afhent

26/4/2017

  • Arnar Huginn tekur við prófskírteini úr hendi Ársæls skólameistara
  • Nemendur ásamt kennurum og skólameisturum
  • Guðrún María tekur við prófskírteini úr hendi Ársæls skólameistara

Borgarholtsskóli sinnir víðtæku alþjóðlegu samstarfi og hefur verið þátttakandi í PASCH verkefninu til eflingar þýskri tungu síðan 2009. Verkefnið er styrkt af þýska ríkinu og er Goethe stofnun okkar helsti samstarfsaðili. 

Nemendur og kennarar Borgarholtsskóla hafa margvíslegt gagn af samstarfinu. Býðst nemendum m.a. að taka alþjóðlega viðurkennt þýskupróf frá Goethe Institut. Prófað er í öllum færniþáttum, þ.e. hlustun, lestri, ritun og tali (frásögn og samtal) og gilda allir þættir jafnt.  Prófin reyna því á alhliða kunnáttu nemenda í þýsku.

Aðalprófdómarinn Angelika Theis kom frá skrifstofu Goethe stofnunar í Kaupmannahöfn og voru þýskukennarar skólans henni til aðstoðar en þeir sáu um að undirbúa nemendur fyrir prófin.  Einnig tók aðstoðarkennarinn okkar, Eduard Schulz, virkan þátt í undirbúningnum. Allir nemendurnir stóðust prófið með prýði.

Af því tilefni var nemendum og foreldrum boðið í kaffisamsæti, þar sem skólameistari afhenti prófskírteini, hvatti þau til frekari dáða og óskaði þeim alls hins besta.

Tveir nemendur, þau Davíð Leví Magnússon og Guðrún María Gunnarsdóttir tóku A2 próf en Arnar Huginn Ingason og Sóley Alexandra Þorsteinsdóttir tóku B1 próf.

Til gamans má geta þess að inntökuskilyrði í þýskudeild Háskóla Íslands er að hafa lokið B1 prófinu.


Hefur þú ábendingu um frétt?

Sendu okkur jákvæðar og skemmtilegar fréttir.

Lesa meira