25 ára afmæli Borgarholtsskóla

24/9/2021

 • Sönghópur nemenda
 • Ásta Laufey í ræðustól
 • Leiklistarnemar sem gömul hjón
 • Guðni Th. Jóhannesson
 • Guðný María í ræðustól
 • Jón Bjarni Snorrason
 • Lilja Dögg Alfreðsdóttir
 • Margrét Sveinbjörnsdóttir
 • Sigursteinn og Anna Sigríður
 • Skólahljómsveit Mosfellsbæjar
 • Skuldarar
 • Steinunn Ása í ræðustól

Fimmtudaginn 23. september 2021 var haldið formlega upp á 25 ára afmæli Borgarholtsskóla. Gestum var boðið í heimsókn og var hátíðardagskrá í sal skólans.

Á meðan gestir gengu í hús lék Skólahljómsveit Mosfellsbæjar nokkur lög. Að því loknu bauð Ásta Laufey Aðalsteinsdóttir skólameistari gesti velkomna en Guðný María Jónsdóttir var kynnir. Ávörp fluttu herra Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands og Lilja Dögg Alfreðsdóttir menntamálaráðherra.

Einnig fluttu ávörp þau Steinunn Ása Þorvaldsdóttir, Sigursteinn Sigurðsson og Anna Sigríður Guðbrandsdóttir, útskrifaðir nemendur skólans, Jón Bjarni Snorrason, formaður nemendafélagsins, og Margrét Sveinbjörnsdóttir, formaður foreldraráðs.

Sönghópur nemenda setti skemmtilegan svip á samkomuna með flutningi laganna Fallegur dagur, Reyndu aftur og Seasons of Love við undirleik Andra Snæs Valdimarssonar, undir stjórn Guðbjargar Hilmarsdóttur. Hljómsveit starfsfólks, Skuldarar, steig á stokk og flutti tvö lög, Yndislegt líf og Á Borgarholtinu en það síðarnefnda er skólasöngur Borgarholtsskóla sem saminn var í tilefni af tvítugsafmælis skólans.

Rúsínan í pylsuendanum var svo frumsýning myndbandsins Ástin kviknar í Borgó, en innihald þess eru viðtöl við fyrrverandi nemendur sem fundu ástina í Borgarholtsskóla.

Að dagskrá lokinni var gestum boðið upp á gómsætar veitingar.

Borgarholtsskóli var settur í fyrsta sinn mánudaginn 2. september 1996. Nemendur voru þá tæplega 400 talsins og starfsfólk á fimmta tug. Síðan þá hefur skólinn stækkað verulega og þróast í takt við tímann en í dag stunda yfir 1300 nemendur nám við skólann og starfsfólk er yfir 140. Borgarholtsskóli hefur alltaf verið með fjölbreytt námsframboð en í dag er boðið upp á bóknám, iðnnám, listnám og starfsnám, auk þess sem sérnámsbraut er við skólann. Nemendur geta valið að stunda nám á afreksíþróttasviði samhliða öðru námi. Markmið sviðsins er að bjóða upp á nám sem styður við þarfir afreksíþróttafólks á framhaldsskólastigi. Flestir nemendur skólans stunda nám í dagskóla en jafnframt eru nokkrar námsbrautir í boði fyrir þá sem velja að stunda nám með vinnu (dreifnám). Skólinn er framsækinn og lögð er áhersla á að allir fái nám við sitt hæfi.

Fleiri myndir má finna á facebook síðu skólans.


Hefur þú ábendingu um frétt?

Sendu okkur jákvæðar og skemmtilegar fréttir.

Lesa meira