2. sæti í smásögusamkeppni á ensku

2/2/2017

  • Arney Ósk Guðlaugsdóttir

Gettu Betur keppandinn Arney Ósk Guðlaugsdóttir hreppti annað sætið með sögu sinni "5  7  10  12  13  15",  sem fjallar á áhrifamikinn hátt um flóttafólk og glímu þeirra við að finna rótfestu í lífinu.

Arndís Ósk er á öðru ári á náttúrufræðibraut í Borgarholtsskóla. Hún hefur skrifað mikið í gegnum tíðina en hefur hægt á sér undanfarið vegna anna í skóla, Gettu Betur og tómstundum. Hugmyndina að sögunni fékk Arndís þegar hún heyrði fyrst um þema keppninnar, ROOTS. Henni varð hugsað til fjölskyldu sem býr hér á landi og er upprunalega frá Albaníu. Ákvörðun stjórnvalda um að reka þau úr landi mætti mikilli mótstöðu frá íbúum í Laugarneshverfinu, sem er hverfi Arndísar. Að endingu fékk fjölskyldan sem betur fer áframhaldandi dvalarleyfi á Íslandi. Þetta mál varð Arndísi innblástur að sögunni og hefur hún í kjölfarið fylgst vel með fréttum af stöðu flóttafólks í heiminum.

Þriðja árið í röð lendir nemandi frá Borgarholtsskóla í verðlaunasæti í smásagnasamkeppni FEKI. Árið 2015 lenti Magnea Marín Halldórsdóttir 2. sæti og ári seinna fékk Kristján Örn Kristjánsson sjálf gullverðlaunin, 1. sæti í smásagnasamkeppni á ensku. 

Verðlaunaafhending fyrir bestu sögurnar fer fram á Bessastöðum þann 3. mars n.k. og mun forsetafrúin, Eliza Reid, afhenda verðlaunin. Arndís Ósk verður þar stoltur fulltrúi Borgarholtsskóla í ár, ásamt enskukennaranum Lilju Guðmundsdóttur.


Hefur þú ábendingu um frétt?

Sendu okkur jákvæðar og skemmtilegar fréttir.

Lesa meira