Erlent samstarf

Erasmus+Á undanförnum árum hefur verið töluvert um erlend samskipti á vegum nemenda og kennara í Borgarholtsskóla.  Nemendur og kennarar skólans hafa verið duglegir að fara í námsferðir til að víkka sjóndeildarhringinn. Meðal þeirra sem lagt hafa land undir fót eru sálfræðinemar, leiklistarnemar og nemendur í erlendum tungumálum.

Vefur um erlend samskipti .

Verkefnastjóri erlendra samskipta er Kristveig Halldórsdóttir
Viðtalstími hennar er á þriðjudögum og miðvikudögum kl. 9:00-12:20 og á fimmtudögum kl. 10:25-12:20.

"Áhugi skiptir máli" (Motivation matters)

Margir framhaldsskólar í Norður Evrópu eru að glíma við minnkandi áhuga/hvatningu (e.motivation) meðal nemenda þegar kemur að námi. Rannsóknir hafa sýnt að á meðan nemendum þykir almennt gaman í skólanum þá er áhuginn/hvatinn til þess að læra að fara minnkandi. Að auki segja nemendur að námsefni í kjarnafögum passi ekki við þeirra veruleika.

Verkefnið gengur út á að skoða áhuga nemenda í fjórum löndum, á Íslandi, í Danmörku, Noregi og Finnlandi. Markmiðið er að setja kjarnafög í forgrunn og fá nemendur til þess að skoða kennsluaðferðir og markmið með kennslunni. Niðurstöður landanna verða bornar saman með það að leiðarljósi að vekja áhuga nemenda og styrkja hlutverk skólans þegar kemur að því að gera nemendur tilbúna til þess að taka virkan þátt í samfélaginu.

Nemendur verða valdir út frá umsóknum og viðtölum, alls fara 18 nemendur frá hverjum skóla í heimsóknir til samstarfslandanna, 6 nemendur í hverja heimsókn. Verkefnið er til 2 ára og er ætlað nemendum fæddum árið 2001.

Félagsvirkni- og uppeldissvið.

Metnaðarfullum og námsfúsum nemendum í félagsmála- og tómstundanámi, leikskólaliðanámi og félagsliðanámi gefst nú kostur á að sækja um að taka 4 vikur af vinnustaðanámi sínu hjá vinnustöðum utan landssteinanna. Þau lönd sem nú þegar eru tilbúin í samstarf eru Portúgal, Danmörk, Svíþjóð og Finnland. Þessi listi er þó ekki tæmandi þar sem öll lönd innan Evrópusambandsins koma einnig til greina. Verkefnið er styrkt af Erasmus+ og mun standa út árið 2018.

Alheimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Borgarholtsskóli tekur þátt í verkefni sem snýst um alheimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna (UN Global Goals).
Til að vinna með markmiðin er notuð sérstök aðferðafræði/kennslufræði sem gengur undir nafninu Learning Power. Þær þjóðir sem taka þátt í verkefninu auk okkar eru, Finnar, Eistar, Lettar og Danir.

Nemendum í nýsköpun var boðið að taka þátt. Verkefninu lýkur með því að hópurinn hittist hér í skólanum í apríllok 2018.

Nordplus hefur samþykkt umsókn um framhald þessa verkefnis og mun það standa yfir í tvö ár, frá haustinu 2018 til vorsins 2020. Sömu lönd munu taka þátt auk þess sem Litháar bætast við. Er fyrsti fundurinn hér í Borgarholtsskóla í nóvember 2018. Sem fyrr eru það nemendur í nýsköpun sem býðst að taka þátt í verkefninu.

Bíliðngreinar

Bíliðngreinadeild er í samstarfi við aðra skóla og stofnanir í gegnum Erasmus+.  Löndin sem taka þátt eru Danmörk, Þýskaland, Bretland, Finnland og Ísland.  Verkefnið er tvíþætt.  Annars vegar er verið að skoða framtíðarskipun og þróun náms í bílamálun.  Hins vegar er samstarf milli skóla og atvinnulífs athugað og þar með hvernig styrkja megi menntun nemenda svo þeir eigi betur með að mæta kröfum iðnaðarins

Þýska

Frá árinu 2009 hefur Borgarholtsskóli tekið þátt í PASCH-verkefninu.  PASCH er samstarfsverkefni milli rúmlega 1500 skóla um allan heim um eflingu þýskunáms og -kennslu.

Mikil samskipti eru við Þýskaland, sérstaklega við þýsku menningarstofnunina Goethe-Institut.   Á hverju sumri fara 2-3 nemendur héðan á þriggja vikna tungumálanámskeið í Þýskalandi sér að kostnaðarlausu.  Þýskukennarar skólans fara líka árlega á tveggja vikna  námskeið í Þýskalandi.
Hingað í skólann koma þýskir sérfræðingar og halda námskeið sem opin eru öllum þýskukennurum landsins, auk þess sem þeir bjóða upp á námskeið fyrir nemendur.  Þýskir listamenn koma líka í heimsókn og sjá um vinnustofur fyrir nemendur við mikla lukku. 
Síðustu árin hefur nemendum staðið til boða að ljúka þýskunáminu með því að taka alþjóðlega viðurkennd próf (A2, B1).   Verkefnið hefur löngu sannað sitt gagn og opnað ýmsar leiðir fyrir nemendur.


28.8.2018