Listnámsbraut til stúdentsprófs

Brautarskipulag þetta gildir fyrir alla nemendur sem hefja nám á listnámsbraut haustið 2015.  Eins gildir það fyrir þá nemendur sem hófu nám á brautinni veturinn 2014-2015 eftir sem við á.

Listnámsbraut Borgarholtsskóla er þriggja ára námsbraut sem lýkur með stúdentsprófi á þriðja þrepi. Námið tekur til fræðilegarar undirstöðu og verklegrar þjálfunar í kvikmyndagerð, grafískri hönnun og leiklist. Áhersla er lögð á að þroska sköpunargáfu og persónulegan tjáningarmáta, m.a. með virkri þátttöku og fræðslu á sviði menningar og lista. Kjörsvið brautarinnar eru grafísk hönnun , kvikmyndagerð og leiklist og velja nemendur sér eitt af þeim í upphafi náms.

Auk þess að veita almenna menntun og undirbúa nemendur undir virka þátttöku í samfélaginu er miðað að því að veita undirbúning undir frekara nám og störf í ýmsum list- og hönnunargreinum. Á öllum stigum námsins er áhersla lögð á skapandi starf, gagnrýna hugsun, verk efnavinnu og hópvinnu.

BRAUTARSKIPULAG

Námið skiptist í kjarna og kjörsvið og er í senn fræðilegt og verklegt. Sérhæfing í faggreinum námsins miðar að undirbúningi undir háskólanám í þessum eða skyldum greinum. Nemendur listnámsbrautar fá þjálfun í undirstöðugreinum myndlistar- og hönnunar, kvikmyndagerðar og leiklistar. Almennt nám á brautinni miðar að því að veita nemendum almenna menntun til að takast á við líf í nútímasamfélagi með áherslu á grunnþætti menntunar en jafnframt með fræðslu um sögu og hlutverk lista og hönnunar í sama tilgangi og til að efla fagvitund á viðkomandi sérsviði.

Nám á listnámsbraut er 200 einingar. Í kjarna brautarinnar eru 140 einingar sem allir nemendur ljúka. Nemendur velja eitt af þremur kjörsviðum og ljúka 50 einingum á völdu sviði. Frjálst val er 10 einingar. Nemendur geta útskrifast af brautinni með framhaldsskólapróf að loknum fyrstu tveimur námsárunum. 

KJÖRSVIÐ LISTNÁMSBRAUTAR

GRAFÍSK HÖNNUN

Sérhæfðir áfangar í grafískri hönnun miða að því að gera nemendur hæfa til að fullvinna eigin hugmyndir á sviði grafískrar hönnunar. Veitt er þjálfun í hugmynda- og skissuvinnu og nauðsynlegri tækni til að útfæra hugmyndir og fullvinna verk fyrir prent- og skjámiðla. Lögð er áhersla á þekkingu og færni í ljósmyndun, myndvinnslu, umbroti, vefsíðuhönnun, auglýsingahönnun og leturfræði. Sérhæfðir fræðilegir áfangar gefa nemendum yfirlit yfir sögu, inntak og lykilhugtök grafískrar hönnunar.  Skipulag brautar.

KVIKMYNDAGERÐ

Sérhæfðir áfangar í kvikmyndagerð miða að því að gera nemendur hæfa til að fullvinna eigin hugmyndir á sviði kvikmyndagerðar. Veitt er þjálfun í hugmynda- og handritsgerð, upptökum, klippingu og eftirvinnslu kvikmynda. Auk undirstöðuatriða í þessum þáttum fá nemendur þjálfun í heimildamyndagerð, útsendingum úr stúdíói og kvikmyndun á vettvangi. Sérhæfðir fræðilegir áfangar gefa nemendum yfirlit yfir strauma og stefnur í kvikmyndagerð, inntak hennar og lykilhugtök. Skipulag brautar.

LEIKLIST

Sérhæfðir áfangar í leiklist miða að þvi að gera nemendur hæfa til að fullvinna eigin hugmyndir á sviði leiklistar. Veitt er þjálfun í raddbeitingu, sviðshreyfingum ásamt leiktækni á sviði og fyrir kvikmyndir. Lögð er áhersla á þekkingu og færni í fjölbreyttum þáttum sviðsetningar, leikgerðar, lýsingar, sviðsmuna, búningahönnunar, leikmyndagerðar og hljóðvinnslu. Sérhæfðir fræðilegir áfangar gefa nemendum yfirlit yfir faglegan og sögulegan grunn til sköpunar og rannsókna við uppsetningu sviðsverka. Skipulag brautar.

Sameiginlegur bóknámskjarni 70 feiningar

Íslenska 20 fein., enska 15 fein., stærðfræði 10 fein., danska 10 fein., listasaga 5 fein., fjölmiðlafræði 5 fein., íþróttir 5 fein.  Alls: 70 ein.

Sameiginlegur brautarkjarni 65 feiningar

Sameiginlegir áfangar listnámsbrautar eru listir og menning, teikning, vefsmíði, skapandi nám og starf,  fræði skynjunar, túlkunar og miðlunar, lita- og formfræði, kvikmyndun, leiklist, samtímamenning, grafísk hönnun, ljósmyndun, nýsköpunar og frumkvöðlafræði og miðlunarfræði.

Kjörsvið 55 feiningar

Kjörsviðsáfangar á sviði kvikmyndagerðar, grafískrar hönnun eða leiklistar fela í sér sérhæfingu á viðkomandi sviði. Nemendur fá kennslu í helstu sérhæfðum vinnslu- og starfsaðferðum greinarinnar og fá tækifæri til að vinna að viðamikil lokaverkefni í tengslum við sitt kjörsvið.

Frjálst val 10 feiningar

Á námsferlinum býðst nemendum að stunda nám áföngum utan sem innan brautar að eigin vali. Gert er ráð fyrir að nemandi ljúki a.m.k. 10 einingum í frjálsu vali til stúdentsprófs.

 20.8.2015