Iðn- og starfsnám

Í skólanum er boðið upp á iðn- og starfsnám á þremur ólíkum sviðum: Bíliðngreinum, málmiðngreinum og félagsvirkni- og uppeldisgreinum. Námið er sniðið að þörfum atvinnulífsins og fer nokkur hluti þess fram á vinnustöðum.

Í bíliðnum geta nemendur valið um þrjár brautir: Bifvélavirkjun, bifreiðasmíði og bílamálun. Að loknu námi og starfsþjálfun taka nemendur sveinspróf í viðkomandi iðngrein og hafa að því loknu full réttindi til starfa í greininni. Námið er á þriðja hæfniþrepi.

Málmiðngreinarnar eru fjórar, blikksmíði, rennismíði, stálsmíði og vélvirkjun. Námið í skólanum tekur um sex annir og að lokinni starfsþjálfun taka nemendur sveinspróf. Námið er á þriðja hæfniþrepi.

Nám í félagsvirkni- og uppeldisgreinum skiptist á fjórar námsbrautir: Nám fyrir félagsliða, leikskólaliða, stuðningsfulltrúa og félagsmála- og tómstundanám. Lengd námsins er fjórar til fimm annir og er það á öðru hæfniþrepi.

Mögulegt er að ljúka námi á öllum iðn- og starfsnámsbrautum með stúdentsprófi. Er það sett upp við hæfi hvers og eins í samráði við náms- og starfsráðgjafa skólans og sviðsstjóra. Stúdentspróf er að lágmarki 200 einingar og lýkur á þriðja hæfniþrepi.


Lotutöflur í bíliðngreinum haustönn 2020
 

14.8.2020