Brautir
Skólinn býður upp á fjölbreytt nám, bæði almennt nám, bóklegt nám til stúdentsprófs, starfsnám, iðnnám og sérnámsbraut fyrir fatlaða.
Innritun - Umsóknir
Í boði eru eftirtaldar námsbrautir:
Bíltæknibrautir
Nemendur öðlast að loknu sveinsprófi réttindi til starfa í bíliðngreinum og til náms í meistaraskóla. Boðið er upp á grunndeild bíliðna, bifvélavirkjun, bifreiðasmíði, bílamálun.
Bóknám til stúdentsprófs
- Félags- og hugvísindabraut. Nám á félags- og hugvísindabraut veitir nemendum víðtæka almenna menntun og undirbýr þá fyrir háskólanám. Áhersla er lögð á félagsvísindi, tungumál og hugvísindi.
- Náttúrufræðibraut. Á náttúrufræðibraut öðlast nemendur haldgóða menntun í grunngreinum náttúruvísinda ásamt því að hljóta víðtæka almenna menntun. Áherlsa er lögð á stærðfræði og aðrar raungreinar.
- Viðskipta- og frumkvöðlabraut. Á brautinni öðlast nemendur innsýn í heim verslunar og viðskipta og hentar námið því vel þeim sem hyggjast leggja stund á háskólanám á þeim sviðum. Áhersla er lögð á færni í stærðfræði og hagnýtingu hennar auk þess sem nemendur kynnast grunnþáttum í fjármálum, forritun, markaðsfræði og upplýsingatækni.
- Afreksíþróttasvið. Afreksíþróttasvið er fyrir nemendur sem vilja stunda sína íþrótt með álagi afreksmanna samhliða bóknámi. Boðið er upp á afreksíþróttasvið í knattspyrnu, körfuknattleik, handbolta, íshokkí, golfi og einstaklingsíþróttum.
- Viðbótarnám til stúdentsprófs. Nemendur sem ljúka skilgreindu starfsnámi eða námi á listnámsbrautum eiga kost á viðbótarnámi til undirbúnings náms á háskólastigi.
Félagsvirkni- og uppeldissvið
Leikskólaliðabraut. Hagnýtt nám fyrir þá sem vilja vinna með börnum og afla sér hagnýtrar starfsmenntunar á stuttum tíma. Markmið námsins er að veita þekkingu og færni til að starfa með börnum í námi í leik.
Félagsmála- og tómstundabraut. Nám sem eykur þekkingu á vettvangi frítímans og á tómstundastarfi barna, unglinga, fatlaðra og aldraðra? Markmið námsins er að koma til móts við þá nemendur sem hafa áhuga á frístundastörfum fyrir almenning. Starfsvettvangur þeirra sem ljúka þessu námi er einkum félagsmiðstöðvar, íþrótta- og æskulýðsfélög og önnur félagasamtök.
Félagsliðanám. Félagsliðanám er fagnám fyrir störf í félagsþjónustu- og uppeldisstofnunum með áherslu á sálfræði, uppeldi, umönnun og fatlanir. Nám fyrir þá sem eiga auðvelt með mannleg samskipti og vilja vinna með fólki. Fjölbreytt nám á framhaldsskólastigi.
Stuðningsfulltrúar. Í grunn- og framhaldsskólum er rík þörf fyrir sérmenntaða stuðningsaðila til fjölbreyttra starfa. Námið er því góður kostur fyrir þá sem vilja vinna í áhugaverðu starfsumhverfi við skapandi viðfangsefni. Stuðningsfulltrúar eru kennurum til aðstoðar við að sinna einum eða fleiri nemendum sem þurfa á sérstökum stuðningi að halda.
Framhaldsskólabraut
Nám fyrir þá sem ekki uppfylla inntökuskilyrði á ofangreindar námsbrautir eða eru óákveðnir.
Listnám
- Grafísk hönnun - þjálfun í hugmynda- og skissuvinnu og nauðsynlegri
tækni til að útfæra hugmyndir og fullvinna verk fyrir prent- og skjámiðla.
Áhersla á á þekkingu og færni í ljósmyndun, myndvinnslu, umbroti,
vefsíðuhönnun, auglýsingahönnun, mörkun og leturfræði. Fræðilegir áfangar gefa
yfirlit yfir sögu, inntak og lykilhugtök grafískrar hönnunar.
- Kvikmyndagerð - þjálfun í hugmynda- og handritsgerð, upptökum, klippingu og
eftirvinnslu kvikmynda. Heimildamyndagerð, útsendingar úr stúdíói og kvikmyndun
á vettvangi. Fræðilegir áfangar gefa yfirlit um strauma og stefnur í
kvikmyndagerð, inntak kvikmyndagerðar og lykilhugtök. Í lokin fullvinna
nemendur eigin kvikmynd til sýningar
- Leiklist - þjálfun í raddbeitingu, sviðshreyfingum ásamt
leiktækni á sviði og fyrir kvikmyndir. Áhersla á þekkingu og færni í
fjölbreyttum þáttum sviðsetningar, leikgerðar, lýsingar, sviðsmuna,
búningahönnunar, leikmyndagerðar og hljóðvinnslu. Fræðilegir áfangar gefa
yfirlit yfir faglegan og sögulegan grunn til sköpunar og rannsókna við
uppsetningu sviðsverka.
Málm- og véltæknigreinar
Nemendur öðlast að loknu sveinsprófi réttindi til að starfa í málm- og véltæknigreinum og málmsuðu og réttindi til náms í meistaraskóla.
Sérnámsbraut
Námsbraut fyrir fatlaða. Námið er góður undirbúningur fyrir störf á vinnumarkaði/vernduðum vinnustöðum.
12.8.2019