Brautskráning

28/5/2017

 • Brautskráning vor 2017
 • Brautskráning vor 2017 - Skólahljómsveit Mosfellsbæjar
 • Brautskráning vor 2017 - Ingi Bogi Bogason aðstoðarskólameistari
 • Brautskráning vor 2017 - Óskar Andri Bjartmarsson
 • Brautskráning vor 2017 - Elísabet Arna Þórðardóttir fyrsti nemandinn til að útskrifast af leiklistarsviði.
 • Brautskráning vor 2017 - Arnar Huginn Ingason efstur á stúdentsprófi með einkunnina 9.32.
 • Brautskráning vor 2017
 • Brautskráning vor 2017
 • Brautskráning vor 2017 - Guðrún Guðmundsdóttir flytur ávarp útskriftarnema
 • Brautskráning vor 2017 - Elísa Ósk Viðarsdóttir flytur ávarp 10 ára stúdenta
 • Brautskráning vor 2017 - Torfi Ólafs Viðarsson fráfarandi formaður nemendaráðs
 • Brautskráning vor 2017 - Ársæll Guðmundsson skólameistari
 • Brautskráning vor 2017
 • Brautskráning vor 2017
 • Brautskráning vor 2017
 • Brautskráning vor 2017
 • Brautskráning vor 2017
 • Brautskráning vor 2017 - Systurnar Jófríður og Bjargey Magnúsdætur fengu báðar viðurkenningar fyrir góðan námsárangur, önnur í félagsliðanámi og hin í viðbótarnámi leikskólaliða.

Brautskráning Borgarholtsskóla fór fram sunnudaginn 28. maí 2017  í Háskólabíói.  Skólahljómsveit Mosfellsbæjar undir stjórn Kristjóns Daðasonar spilaði í anddyrinu á meðan gestir voru að koma í hús.

Ársæll Guðmundsson skólameistari setti samkomuna, en Ásta Laufey Aðalsteinsdóttir kennari og verkefnastjóri mannauðsmála var kynnir.

Ingi Bogi Bogason aðstoðarskólameistari sagði frá starfsemi skólans.  Í lok vorannar voru nemendur við Borgarholtsskóla alls 1116, nám í dagskóla stunduðu 937  og í dreifnámi voru 179 nemendur. 135 manns voru við störf í skólanum þar af 97 kennarar.

Óskar Andri Bjartmarsson útskriftarnemi af félagsfræðibraut söng tvö lög við undirleik Guðbjargar Sigurjónsdóttur. Fyrst söng hann Rimpianto eftir Enrico Toselli og síðar Þú ert, lag eftir Þórarinn Guðmundsson við texta Gests (Guðmundur Björnson).

Útskriftarnemar voru 160 og komu af hinum ýmsu brautum skólans. Ársæll Guðmundsson skólameistari brautskráði nemendur og kennslustjórar afhentu þeim birkiplöntur til gróðursetningar, en það er hefð sem fyrsti skólameistari Borgarholtsskóla innleiddi. Margir hlutu viðurkenningar fyrir góðan árangur í ýmsum námsgreinum, en Arnar Huginn Ingason útskriftarnemandi af viðskipta- og hagfræðibraut hlaut hæstu einkunn á stúdentsprófi þetta vorið en hann var með einkunnina 9.32.

Guðrún Guðmundsdóttir flutti ávarp útskriftarnema en hún brautskráðist úr viðbótarnámi leikskólaliða og Elísa Ósk Viðarsdóttir flutti ávarp 10 ára stúdenta. Torfi Ólafs Viðarsson fráfarandi formaður nemendaráðs flutti einnig ávarp.

Ársæll Guðmundsson flutti kveðjuorð til brautskráðra. Hann lýsti þeirri skoðun sinni að menntakerfið ætti að þróast eins og annað og íhaldssemi þar væri ekki góð. Borgarholtsskóli mun taka breytingum og hluti af því er að á næsta dagatali hafa hefðbundnir prófadagar verið felldir niður og er með því verið að færa þungann í mati á hæfni og þekkingu nemenda frá lokaprófum yfir í leiðsagnarmat.

Hann hvatti nemendur til að gera kröfur til sín og reyna ávallt að ná árangri, en jafnframt að hafa mannúð og kærleika að leiðarljósi. Hann bað nemendur að hafa trú á sér, læra af sögunni og búa til nýja sögu, vera skapandi og læra af mistökum svo þau geti orðið styrkur í nýjum verkefnum. Hann benti á að góða menntun og gagnrýna hugsun þyrfti að öðlast og að mikilvægt væri að hafa góð verkfæri, verkvit og menntun sem byggðist á heiðarleika, réttlæti og sanngirni. Hann vonaði að námið í Borgarholtsskóla hefði veitt þeim gott veganesti og það hefði fært þeim kjark og þor til að standa vörð um góðan málstað og sannfæringu og elju til að skapa og miðla.

Ársæll hvatti nemendur til að sækja sér alltaf meiri þekkingu, reynslu og hæfni. Ekki bara menntun sem fæst í skóla heldur einnig með því að nýta þá þekkingu sem búið er að afla. Hann sagðist vona að líf þeirra allra yrði hamingju- og gæfuríkt.

Tveir starfsmenn skólans láta af störfum vegna aldurs þetta vorið, en það eru þau Ása Kristín Jóhannsdóttir kennari í dönsku og lífsleikni og Matthías Nóason kennari í málm- og véltæknigreinum. Þessum kennurum voru færðar gjafir og þeim þökkuð farsæl störf við skólann.

Starfsfólki skólans var þakkað fyrir vel unnin störf og skólanum var formlega slitið.

Að lokum risu allir úr sætum og sungu saman Ísland er land þitt, lag eftir Magnús Þór Sigmundsson við texta Margrétar Jónsdóttur.


Hefur þú ábendingu um frétt?

Sendu okkur jákvæðar og skemmtilegar fréttir.

Lesa meira