Erlend samskipti

Erasmus+Á undanförnum árum hefur verið töluvert um erlend samskipti á vegum nemenda og kennara í Borgarholtsskóla.  Nemendur og kennarar skólans hafa verið duglegir að fara í námsferðir til að víkka sjóndeildarhringinn. Meðal þeirra sem lagt hafa land undir fót eru sálfræðinemar, leiklistarnemar og nemendur í erlendum tungumálum.

Vefur um erlend samskipti .

Raungreinar

Borgarholtsskóli fékk á dögunum Erasmus+ styrk til erlendra samskipta.  Verkefnið heitir Innovative model to career by STEM, eða þróun líkans til að auka áhuga á starfsferli í raungreinum. 

Þátttökulönd eru auk Íslands, Lúxemborg, Tyrkland, Ítalía og Litháen sem stýrir verkenfninu.  Bæði kennarar og nemendur munu heimsækja löndin og kynna sér starfsemi skólanna, menntakerfi landanna og vinna að þróun líkansins. 

STEM stendur fyrir science, technology, engineering and math og er lögð mikil áhersla á að auka sókn nemenda í þessar greinar innan evrópusambandsins.  Ætlunin er að koma á tengslum milli nemenda og kennara þessara landa og þeir deili með hvor öðrum sinni þekkingu, reynslu og áhuga. 

Bíliðngreinar

Bíliðngreinadeild er í samstarfi við aðra skóla og stofnanir í gegnum Erasmus+.  Löndin sem taka þátt eru Danmörk, Þýskaland, Bretland, Finnland og Ísland.  Verkefnið er tvíþætt.  Annars vegar er verið að skoða framtíðarskipun og þróun náms í bílamálun.  Hins vegar er samstarf milli skóla og atvinnulífs athugað og þar með hvernig styrkja megi menntun nemenda svo þeir eigi betur með að mæta kröfum iðnaðarins

Þýska

Frá árinu 2009 hefur Borgarholtsskóli tekið þátt í PASCH-verkefninu.  PASCH er samstarfsverkefni milli rúmlega 1500 skóla um allan heim um eflingu þýskunáms og -kennslu.

Mikil samskipti eru við Þýskaland, sérstaklega við þýsku menningarstofnunina Goethe-Institut.   Á hverju sumri fara 2-3 nemendur héðan á þriggja vikna tungumálanámskeið í Þýskalandi sér að kostnaðarlausu.  Þýskukennarar skólans fara líka árlega á tveggja vikna  námskeið í Þýskalandi.
Hingað í skólann koma þýskir sérfræðingar og halda námskeið sem opin eru öllum þýskukennurum landsins, auk þess sem þeir bjóða upp á námskeið fyrir nemendur.  Þýskir listamenn koma líka í heimsókn og sjá um vinnustofur fyrir nemendur við mikla lukku. 
Síðustu árin hefur nemendum staðið til boða að ljúka þýskunáminu með því að taka alþjóðlega viðurkennd próf (A2, B1).   Verkefnið hefur löngu sannað sitt gagn og opnað ýmsar leiðir fyrir nemendur.

WOYPOC

Borgarholtsskóli tekur þátt í Erasmus+ verkefninu WOYPOC (“WILL OF YOUNGS, POWER OF CULTURE”). Verkefnið gengur út á forvarnir í tengslum við netfíkn og vímuefni. Þátttökulöndin eru auk Íslands, Litháen, Tyrkland og Kanaríeyjar.

7 nemendur frá hverju þátttöku landi auk hópstjóra hittast í hverju landi, kynna sér mismunandi áherslur í tengslum við efnið og vinna verkefni.

Þróun í sérkennslu

Borgarholtsskóli var sérstakur samstarfsaðili fyrir Íslands hönd í Evrópusamstarfi í þróun sérkennslu. Evrópumiðstöð fyrir þróun í sérkennslu, „The European Agency for Development in Special Needs Education“, er sjálfstæð stofnun sem menntamálaráðuneyti þátttökuþjóða standa að.

Aðalmarkmið miðstöðvarinnar er að vinna að auknum gæðum og endurbótum í sérkennslumálum og skapa öflugt samstarf á Evrópugrundvelli á þessu sviði. Skrifstofur samtakanna eru tvær, önnur er staðsett í Danmörku og hin er í Belgíu. 

Í Evrópumiðstöðinni er upplýsingum safnað saman, unnið er úr þeim og þeim dreift á vef miðstöðvarinnar, með fréttabréfum og skýrslum.

Frekari upplýsingar er að finna á vef miðstöðvarinnar.  Á vefnum er að finna samanburðarupplýsingar um hvernig sérkennsla fer fram hjá öllum þátttökulöndunum og einnig ítarlegar greinargerðir frá hverju landi fyrir sig ásamt upplýsingum um tengiliði.

28.10.2016