Skólareglur

Ómetanleg dýrmætiViðmót nemenda, kennara og annars starfsfólks skólans skal einkennast af gagnkvæmri virðingu og prúðmannlegri framkomu.

Nám krefst aga eins og fram kemur í einkunnarorðum skólans: agi, virðing, væntingar. Fyrst og fremst er nauðsynlegt að nemendur beiti sjálfsaga en í kennslustofunni er kennarinn verkstjóri og setur þar nánari reglur sem nemendum ber að hlýða. Brjóti nemandi reglur skólans er hann boðaður til viðtals við stjórnendur þar sem brotið er metið og viðurlög ákveðin í samræmi við gildandi reglur um meðferð mála í almennum hluta námskrár fyrir framhaldsskóla.

Til skólareglna teljast auk þessa skólasóknarreglur, umgengnisreglur, reglur um námsframvindu og prófareglur.

Meðferð ágreiningsmála

Leitast skal við að leysa ágreiningsmál fljótt og vel á vettvangi skólans. Miðað er við að náms- og starfsráðgjafi sé hafður með í ráðum við meðferð ágreiningsmála er varða nemendur.

Rísi ágreiningur milli nemenda, kennara og eða annarra starfsmanna sem ekki tekst að finna lausn á skal vísa málinu til viðkomandi kennslustjóra og /eða skólameistara sem tekur málið til umfjöllunar og ákvörðunar.  Uni málsaðilar, þar með talið forráðamenn nemenda yngri en 18 ára, ekki niðurstöðu í málinu má vísa því til mennta- og menningarmálaráðuneytis.

Brot á skólareglum og viðurlög

Nemendum ber að kynna sér skólareglur. Vanþekking á reglunum leysir þá ekki undan ábyrgð.

Brjóti nemandi reglur skólans fær hann munnlega ábendingu eða áminningu eða alvarlegt tiltal kennslustjóra eða skólastjórnenda. Við alvarleg eða ítrekuð brot kemur til skrifleg áminning frá skólameistara eða mætingastjóra. Fái nemandi skriflega áminningu eru foreldrar/forráðamenn ólögráða nemenda látnir vita.

Í skriflegri áminningu skal koma fram:

  • tilefni áminningarinnar og þau viðbrögð sem fylgja brjóti nemandi aftur af sér
  • að nemandanum sé gefinn kostur á að andmæla áminningunni og skal tímafrestur hans til þess tilgreindur

Brjóti nemandi ítrekað eða gróflega af sér, t.d. með ofbeldisverknaði, með sölu fíkniefna eða með öðrum alvarlegum hætti, er honum vikið brott úr skóla tafarlaust.

Við meðferð mála skal sérstaklega gæta ákvæða stjórnsýslulaga, laga um meðferð persónuupplýsinga og upplýsingalaga.

Viðbrögð við broti á skólareglum geta verið eftirfarandi, eftir alvarleika brotsins

  • Munnleg ábending frá starfsmanni skólans
  • Tiltal kennslustjóra
  • Skrifleg áminning mætingastjóra, kennslustjóra eða skólameistara
  • Brottvikning úr áfanga
  • Brottvikning úr skóla um lengri eða skemmri tíma

Sjá einnig skólasóknarreglur, reglur um námsframvindu og prófareglur.15.02.16