Margmiðlunarhönnun

Dreifnám fyrir alla - nám með vinnu


Innritað verður næst í hagnýta margmiðlun í janúar 2018.

Hagnýt margmiðlun

Borgarholtsskóli býður upp á metnaðarfullt dreifnám í margmiðlun sem er sérsniðið að þörfum þeirra sem eru í vinnu eða öðru námi. Námið nýtist öllum sem vilja ná tökum á upplýsingatækninni til marksækinnar miðlunar. Ekki síst er námið gagnlegt kennurum, fjölmiðlafólki, myndlistarmönnum, kynningarfulltrúum, starfsmönnum upplýsingamiðstöðva á borð við bókasöfn og þeim sem vinna við upplýsingamiðlun á vegum stofnana, fyrirtækja og félagasamtaka. Fyrir þá sem lokið hafa framhalds- eða háskólanámi er námið vel til þess fallið að auka færni í starfi eða auka starfsmöguleika. Námið er á 4. þrepi sem gerir háskólum mögulegt að meta námið til háskólaeininga (ECTS-eininga) en það er þó alfarið undir viðkomandi háskólastofnun komið. Inntökuskilyrði eru stúdentspróf eða sambærileg menntun.

Forsendur

 • Námið er skipulagt sem dreifnám. • Námið er skipulagt sem 60% nám í 2 ár.
 • Á hverri önn eru kenndar 12 einingar (18 fein) og námið því alls 48 einingar (72 fein) sem deilist á 4 annir (A–D).
 • Námi á hverri önn er skipt í verklega og fræðilega áfanga. Vægi verklegra áfanga er 2/3, þ.e. 8 einingar (12 fein) á önn eða 36 einingar (48 fein) alls.
 • Vægi fræðilegra áfanga er 1/3, þ.e. 4 einingar (6 fein) á önn og 16 einingar (24 fein) alls.
 • Reiknað er með að kennsla á hverri önn deilist á 18 vikur (þar sem námsmat er innifalið).
 • Verklegu áfangarnir eru skipulagðir sem einn áfangi á önn sem skiptist í afmarkaða hluta sem lýkur með verkefnaskilum og fjölþættu námsmati.
 • Fræðilega námið er skipulagt sem einn áfangi á önn, 6 fein sem kenndur yrði í  18 vikur (þar sem fjölþætt námsmat er innifalið).

Náms- og kennslutihögun

 • Staðbundnar lotur eru alls fjórum sinnum á önn - fimmtudag (6 kest) kl. 17 til 21, föstudag kl.9 til 19 (12 kest.) og laugardag kl 9 til 19 (12 kest..
 • Á hverri önn eru alls 13 umræðutímar á netinu í bóklegum áföngum námsins - klukkustund hver. Umræðutímar þessir fara fram á miðvikudögum kl. 18 til 19. Nánari tímasetningar veitir kennari í byrjun hverrar annar.
 • Á hverri önn eru alls 26 umræðutímar á netinu í verklegum áföngum námsins - tvær klukkustundir hverju sinni. Umræðurnar fara fram á fimmtudögum kl. 16:35 til 17:35 og 18 til 19. Nánari tímasetningar veitir kennari í byrjun hverrar annar.
 • Námsmat byggir á ástundun, verkefnaskilum (vikulega og í lotum) og prófun eftir því sem við á.

Skipting námsins í annir

Önn A: Grunnur að margmiðlun
Markmið verklegs áfanga eru á þrepi 3 (1/4) og 4 (3/4). Í áfanganum er lagður grunnur að námi í margmiðlun með almennri kynningu á meginþáttum námsins, þjálfun í myndrænni framsetningu efnis og vinnuferlum margmiðlunarhönnunar. Nemendur þjálfast í sjónlistum, hugmyndavinnu og skissugerð í tengslum við væntanlega verkefnavinnu á sviði umbrots, myndlýsingar, kvikmyndunar, prentmiðlunar og skjámiðlunar. Markmið fræðiáfanga á sviði sjónmenningar eru á þrepi 4. Sjónmenning er þungamiðja áfangans. Nemandi kynnist fræðilegum forsendum myndmáls og myndlæsis í því skyni að efla skilning í beitingu myndmáls og auka færni til að tjá sig á gagnrýninn og merkingarbæran hátt. Markmiðið er að efla nemandann í að tjá sig myndrænt.

Önn B: Umbrot og myndlýsing
Markmið verklegs áfanga eru á þrepi 3 (1/4) og 4 (3/4). Í áfanganum öðlast nemendur sérhæfða þekkingu og þjálfun á sviði prenthönnunar, leturnotkunar, ljósmyndunar, myndvinnslu og umbrots með það að markmiði að miðla efni með skýrum og skilmerkilegum hætti í bókum, dagblöðum, tímaritum eða vefmiðlum nútímans. Mikil áhersla er lögð á gagnrýna hugsun, frumkvæði og heildstætt vinnuferli frá hugmynd til lokaverks. Markmið fræðiáfanga eru á sviði ljósmynda- og prentmiðlafræði á þrepi 4. Í áfanganum er lögð áhersla á að nemendur kynnist stíl- og hugmyndaþróun í ljósmyndun og grafískri hönnun. Þeir kynnast forsögu prentverks og tjáningar á prenti, fræðast um prentun og áhrif hennar á samfélag og menningu. Í kjölfarið er farið nánar í upphaf ljósmyndunar á 20. öld og hvernig hún þróast í stíl og áhrifum. Samfara þessu er rætt um eflingu grafískrar hönnunar frá klassískum hugmyndum 19. aldar í átt til umbrota og hugmynda nútímahyggju. Einnig er fylgst með uppgangi grafískra miðla eins og dagblaða og hvernig ljósmyndir skipa ríkan sess í þróun þeirra. Í lokin er fjallað um þróun ljósmyndunar og grafískra miðla í átt til aukinnar neysluhyggju eftir seinni heimsyrjöld, þegar grafískir miðlar setja smátt og smátt ríkari mynd á útlit og áferð umhverfisins. Megináhersla er á stílþróun í samhengi við félagslegar og stjórnmálalegar aðstæður á hverjum tíma. Í lokin er reiknað með að nemandi geti nýtt sér þekkingu í áfanganum í þróun eigin hönnunar og í umræðu um grafíska hönnun og ljósmyndun almennt.

Önn C: Kvikmyndun og hljóðvinnsla
Markmið verklegs áfanga eru á þrepi 3 (1/4) og 4 (3/4). Í áfanganum vinna nemendur stutt kvikmyndaverkefni þar sem áhersla er á að byggja upp þróaðar og sjálfstæðar aðferðir í hugmyndavinnu, kvikmyndun, klippingu og vinnslu umhverfishljóða. Á þessum grunni vinna nemendur verkefni þar sem hljóð og tónlist vinnur saman með lagkvikuðu efni. Lögð er áhersla á að nemendur fylgi vinnuferli kvikmynda, þrói hugmyndir, skrifi handrit og geri verkskipulag, vinni við sviðssetningu, lýsingu, tökur og leikstjórn eftir þörfum, auk þess að ljúka verkinu með klippingu, hljóðsetningu, titlun og annarri eftirvinnslu. Markmið fræðiáfanga eru á sviði fræða kvikmyndunar og rafrænna miðla á þrepi 4. Í áfanganum rannsaka nemendur tjáningarmáta, bakgrunn og aðferðir að baki miðlunar sem byggir á kvikmyndun og hljóðritun. Sérstök áhersla er lögð á stílbrigði og aðferðir meginkvikmyndagerða en einnig verða teknar fyrir tæknilegar forsendur, frásagnarmáti, miðlun og afstaða framleiðenda, listamanna og áhorfenda. Þessir þættir eru teknir fyrir á grundvelli kvikmyndafræða með áherslu á menningarlegar og samfélagslegar forsendur. Nemendur rannsaka sviðið á þematískan hátt og skila niðurstöðum í rituðu máli og með umræðum.

Önn D: Upplýsinga- og gagnamiðlun
Markmið verklegs áfanga eru á þrepi 3 (1/4) og 4 (3/4). Megináhersla á varðveislu, úrvinnslu og framsetningu gagna og efnis. Lögð er áhersla á textavinnslu í almennum skilningi þar sem merkingarbær heild er ofin úr myndum, hljóði, skrifum og tölum. Nemendur vinna með gagnvirka miðla og kynningarform fyrir skjámiðla en sjónum jafnframt beint að víðtækara sviði sjónrænnar miðlunar, s.s. miðlun upplýsinga í þrívíðu rými (t.d. vegvísun í anddyri fyrirtækis eða framsetning upplýsinga í kennslu, á söfnum og sýningum). Fræðileg nálgun felur í sér fjölmiðlun, gagnasafnsfræði, bókasafnsfræðii, siðferði upplýsingasöfnunar og birtingar og táknfræði umhverfis og rýmis. Markmið fræðiáfanga eru á sviði upplýsinga- og gagnamiðlunarfræða á þrepi 4. Í áfanganum er farið yfir þróun og áhrif upplýsingamiðla og nútíma gagnamiðla. Í upphafi kynnast nemendur útsendingarmiðlum sem eiga upptök sín í upphafi 20. aldar. Þeir fara yfir þróun útvarps og sjónvarps frá því fyrir seinni heimstyrjöld fram til samtíma, ræða áhrif þeirra og aðferðir. Þeir fara einnig í forsendur og sögu tölvumiðlunar og það hvernig netvæðing hefur breytt samskiptamátum fólks og hugmyndum um heiminn. Samhliða þessu rannsaka þeir aðra þætti tölvumiðlunar, í tengslum við gagnasöfnun og þau vandamál og möguleika sem snúa að úrvinnslu gagna og dreifingu þeirra. Í lokin er reiknað með að nemandi hafi góða yfirsýn yfir svið gagnaveitna, útsendingar-­- og netmiðla og geti rætt forsendur þeirra til framtíðar í tengslum við hagnýt störf sín á þessu sviði.

Lokamarkmið

Dreifnám í margmiðlun hefur það lokamarkmið að gera fólki með ólíkan bakgrunn og í ólíkum störfum í atvinnulífinu fært um að miðla mynd-­ og hljóðefni á skýran og áhrifaríkan hátt. Dreifnámið er í senn dýpkun á þriðja þrepi í margmiðlun, undirbúningur undir margvísleg störf á sviði miðlunar og undirbúningur undir frekara nám á háskólastigi í margmiðlun eða tengdum greinum.

Tækja- og hugbúnaður

Nemendur þurfa að hafa aðgang að góðum tölvubúnaði með nettengingu.  Nemendur þurfa að hafa aðgang að stafrænni myndavél. Í kvikmyndaáföngum þurfa nemendur að hafa aðgang að stafrænni kvikmyndatökuvél.

Nánari upplýsingar um námið veitir:

Hákon Már Oddsson kennslustjóri
Netfang: hakon@bhs.is

7.6.2017