Listnám

Grafísk hönnun - kvikmyndagerð - leiklist

Listnám til stúdentsprófs

Listnámsbraut er þriggja ára stúdentsprófsbraut þar sem allir nemendur fá undirstöðu í grafískri hönnun, kvikmyndagerð og leiklist en velja síðan eitt af þessum sviðum til að sérhæfa sig í.

Námið hentar þeim vel sem hyggja á frekara nám í grafískri hönnun, kvikmyndagerð eða leiklist en veitir jafnframt góða almenna menntun þar sem áhersla er lögð á sjálfstæða og skapandi verkefnavinnu og nauðsynlega tæknikunnáttu. Auk verklegra áfanga stunda nemendur nám í fræðigreinum lista og hönnunar, kjarnagreinum bóknáms og íþróttum.

Listnámsbraut Borgarholtsskóla er vel búin tækjum, aðstaða góð og kennarar með sérhæft nám og starfsreynslu að baki. Nám á listnámsbraut er lifandi, skemmtilegt og skapandi og opnar dyr að spennandi möguleikum að námi loknu.

Nánar um skipulag listnámsbrautar

Grafísk hönnun

Þjálfun í hugmynda- og skissuvinnu og nauðsynlegri tækni til að útfæra hugmyndir og fullvinna verk fyrir prent- og skjámiðla. Áhersla á á þekkingu og færni í ljósmyndun, myndvinnslu, umbroti, vefsíðuhönnun, auglýsingahönnun, mörkun og leturfræði. Fræðilegir áfangar gefa yfirlit yfir sögu, inntak og lykilhugtök grafískrar hönnunar.

Grafísk hönnun - skipulag brautar

Kvikmyndagerð

Þjálfun í hugmynda- og handritsgerð, upptökum, klippingu og eftirvinnslu kvikmynda. Heimildamyndagerð, útsendingar úr stúdíói og kvikmyndun á vettvangi. Fræðilegir áfangar gefa yfirlit um strauma og stefnur í kvikmyndagerð, inntak kvikmyndagerðar og lykilhugtök. Í lokin fullvinna nemendur eigin kvikmynd til sýningar.

Kvikmyndagerð - skipulag brautar

Leiklist

Þjálfun í raddbeitingu, sviðshreyfingum ásamt leiktækni á sviði og fyrir kvikmyndir. Áhersla á þekkingu og færni í fjölbreyttum þáttum sviðsetningar, leikgerðar, lýsingar, sviðsmuna, búningahönnunar, leikmyndagerðar og hljóðvinnslu. Fræðilegir áfangar gefa yfirlit yfir faglegan og sögulegan grunn til sköpunar og rannsókna við uppsetningu sviðsverka.

Leiklist - skipulag brautar

DREIFNÁM  


HAGNÝT MARGMIÐLUN

Borgarholtsskóli býður upp á metnaðarfullt dreifnám í margmiðlun sem er sérsniðið að þörfum þeirra sem eru í vinnu eða öðru námi. Námið nýtist öllum sem vilja ná tökum á upplýsingatækninni til marksækinnar miðlunar. Ekki síst er námið gagnlegt kennurum, fjölmiðlafólki, myndlistarmönnum, kynningarfulltrúum, starfsmönnum upplýsingamiðstöðva á borð við bókasöfn og þeim sem vinna við upplýsingamiðlun á vegum stofnana, fyrirtækja og félagasamtaka. Fyrir þá sem lokið hafa framhalds- eða háskólanámi er námið vel til þess fallið að auka færni í starfi eða auka starfsmöguleika. Námið er á 4. þrepi sem gerir háskólum mögulegt að meta námið til háskólaeininga (ECTS-eininga) en það er þó alfarið komið undir viðkomandi háskólastofnun komið. Inntökuskilyrði eru stúdentspróf eða sambærileg menntun.
Sjá nánar.

4.4.2016